Monday, September 28, 2015

Ályktun Alþýðufylkingarinnar um mál flóttamanna

Alþýðufylkingin er þeirrar skoðunar að Ísland ætti að taka við eins mörgum flóttamönnum og mögulegt er. Bæði vegna þess að sjálfsagt er og rétt að hjálpa þeim sem þurfa á hjálp að halda og vegna þess að Ísland ber ákveðna ábyrgð á flóttamannstraumnum í gegnum stuðning við stríð sem hafa rekið fólk á flótta, og okkur ber því að axla þá ábyrgð. Eins og allir vita flýr fólk nú stríðsátök í milljónatali með von um tækifæri til að lifa eðlilegu lífi. Það er ekki hægt að skorast undan þeirri ábyrgð að veita þeim alla þá aðstoð sem við getum boðið. Það ástand sem skapast hefur í mörgum ríkjum Miðausturlanda er að mestu leyti afsprengi vestrænnar hernaðaríhlutunarstefnu auk þess sem hún hefur gert illt verra í þeim átökum sem ekki skrifast á hana beint.

Alþýðufylkingin fordæmir einnig þá stefnu sem ríkt hefur í málefnum flóttafólks hjá bæði stjórnvöldum Íslands og Evrópusambandsríkjunum. Nú þegar ekki er lengur hægt að hunsa vandann, ýta honum undan sér og að safna fólki saman í flóttamannabúðir í þeirri von að það hverfi, þegar vandinn hefur fengið að vinda upp á sig svo rækilega ekki var hægt að loka augunum fyrir honum lengur reyna stjórnvöld Evrópuríkja að koma sér saman um aðgerðir sem líklega reynast „of lítið, of seint“. Það er engan vegin boðlegt að taka við ákveðnum fjölda flóttafólks í eitt skipti og halda svo áfram þeirri stefnu að senda fólk úr landi til að safna þeim saman í flóttamannabúðum. Grundvallarstefnubreytingu er þörf ekki bara á Íslandi heldur í Evrópu. Stríðsátökunum sem fólkið flýr, með öllu því ofbeldi og upplausn sem þeim fylgir, virðist ekki vera að fara að ljúka neitt á næstunni.

Það er mikilvægt að tekið sé vel á móti því flóttafólki sem hingað kemur, það upplifi sig raunverulega velkomið og hafi öll sömu tækifæri, réttindi og skyldur og aðrir íbúar landsins. Þegar í hræðsluáróðri vísað er til „innflytjendavandamála“ í nágrannalöndum okkar er með yfirborðskenndum og villandi hætti vísað til félagslegra vandamála sem sköpuð eru og viðhaldið er fyrst og fremmst vegna jaðarsetningar og stéttskiptingar. Vandamálið er ójöfnuður, félagslegur og efnahagslegur, en ekki uppruni, menning eða trúarafstaða.

Við eigum að stela slagorðinu af fótstalli Frelsisstyttunnar og gera það að okkar: Gefið mér ykkar þreyttu, fátæku og kúguðu sem þrá að draga andann frjálsir!

Alþýðufylkingin 28. september 2015

Thursday, September 24, 2015

Alþýðufylkingin fundar á Ísafirði næsta mánudag

Alþýðufylkingin í Edinborgarhúsinu á Ísafirði mánudag 28. sept kl. 20. Þorvaldur Þorvaldsson og Vésteinn Valgarðsson skýra stefnu flokksins og afstöðu til brýnna mála samtímans, og taka þátt í umræðum.

Alþýðufylkingin var stofnuð í ársbyrjun 2013 og bauð fram í Reykjavíkurkjördæmum í Alþingiskosningunum það ár og í borgarstjórnarkosningunum árið eftir. Flokkurinn stefnir nú að framboði í öllum kjördæmum í næstu kosningum og vill þannig tryggja að vinstrivalkostur verði í boði.

Stefna Alþýðufylkingarinnar byggir á því að auka beri vægi félagslegra lausna í hagkerfinu og í samfélaginu á kostnað markaðsvæðingar. Það sé frumskilyrði fyrir auknum jöfnuði og farsæld. Á fundinum verður fjallað um framtíðarsýn flokksins og leiðir að henni, en einnig hlustað á sjónarmið fundarmanna. Allir áhugasamir eru velkomnir.

Monday, September 7, 2015

Ályktun um málefni Rússlands og Úkraínu

Framkvæmdastjórn Alþýðufylkingarinnar mótmælir harðlega stefnu ríkisstjórnar Íslands varðandi málefni Rússlands og Úkraínu.

Málið snýst ekki um viðskiptahagsmuni þeirra sem selja matvæli til Rússlands. Það er hins vegar forkastanlegt að ríki sem kennir sig við lýðræði og mannréttindi skuli án gagnrýni styðja ólöglega valdatöku fasista í Kænugarði í febrúar 2014.

Fasistastjórnin í Úkraínu gengur erinda heimsvaldasinna, með Evrópusambandið og Bandaríkin í fararbroddi, og brýtur mannréttindi á eigin borgurum, ekki síst þeim rússneskumælandi.

Viðskiptabann Evrópusambandsins og Bandaríkjanna gegn Rússlandi er óréttmætt og þjónar einungis þeim tilgangi að auka spennu og kynda undir átökum. Íslandi ber því að hætta stuðningi við viðskiptabannið og taka aftur upp eðlileg samskipti við Rússland, sem áratugum saman hefur sýnt Íslandi vinsemd.


Framkvæmdastjórn Alþýðufylkingarinnar 3.9. 2015

Ályktun um verkalýðsmál

Alþýðufylkingin leggst eindregið gegn hugmyndum Samtaka atvinnulífsins og ASÍ-forystunnar um það sem þeir kalla „nýjar leiðir í kjarasamningum til að tryggja frið á vinnumarkaði og raunverulegar kjarabætur“.

Hið nýja „vinnumarkaðsmódel“, eins og það er kallað er ekkert annað en aðför atvinnurekenda að verkfalls- og samningsrétti launafólks, með fullum stuðningi verkalýðsforystunnar í landinu.

Alþýðufylkingin harmar að ASÍ-forystan skuli enn vera við „stétt-með-stétt“ heygarðshornið og skorar á forystu BSRB að láta ekki teyma sig út í fúafenið.
Framkvæmdastjórn Alþýðufylkingarinnar 3.9. 2015

Monday, May 18, 2015

Lýðræði eða lýðskrum?

Það var aumkunarvert að horfa nýverið upp á Katrínu Jakobsdóttur, formann VG, mæla fyrir tillögu um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna um aðild að Evrópusambandinu. Enn fremur að hún skyldi segja að þar sé um að ræða prófstein á lýðræðið í landinu.

Þar talar Katrín annað hvort gegn betri vitund eða hún skilur ekki muninn á lýðræði og lýðskrumi. Þjóðaratkvæðagreiðsla er ekki endilega ávísun á lýðræði. Það ræðst af ýmsu. Það er t.d. frumskilyrði að kostirnir sem valið er um séu skýrir og báðir eða allir framkvæmanlegir. Þannig hlyti eina lýðræðislega atkvæðagreiðslan um þetta mál að snúast um viljann til að ganga í ESB eða ekki.

Þá þyrfti líka að liggja skýrt fyrir að fyrirvörum sem fylgdu þingsályktuninni um aðildarumsókn yrði vikið til hliðar og forræði þjóðarinnar yfir sjávarauðlindinni yrði gefið upp á bátinn. Sama á við um það skilyrði að setja skorður við innflutningi dýra- og landbúnaðarafurða til að koma í veg fyrir sjúkdóma og tryggja fæðuöryggi.

Þessi skilyrði komu fram bæði í greinargerð og nefndaráliti sem vísað er til í tillögunni sjálfri. Seint á árinu 2011 sigldu viðræðurnar við ESB í strand þar sem ESB neitaði að opna viðræður um sjávarútvegs- og landbúnaðarkaflann fyrr en fyrir lægi tímasett áætlum um aðlögun Íslands að stefnu ESB í málaflokkunum.

Það er tímabært að Katrín Jakobsdóttir og aðrir sem ákaft hafa reynt að blekkja þjóðina undanfarin misseri svari því hvort þeir vilja setja auðlindir Íslands á opinn evrópskan markað, koma á viðskiptahöftum við lönd utan ESB og lögfesta markaðsvæðingu allra innviða samfélagsins. Auk þess hangir margt fleira á spýtunni sem sumt kemur ekki í ljós fyrr en eftir mörg ár.

Ætlar Katrín og fylgjendur hennar kannski að sæta lagi til smokra sér fram hjá þeim fyrirvörum sem Alþingi setti við aðildarumsóknina svo lítið beri á, eða er meiningin að fyrirhugaðar viðræður verði eins konar störukeppni við ESB? Niðurstaða hennar yrði fyrirséð þar sem ESB hefur á að skipa her manna með langa reynslu af að stara.

Spurningin snýst um hvort við viljum ganga í ESB með því sem því fylgir en ekki um formsatriði eða óánægju með ríkisstjórnina. Með inngöngu í ESB yrðum við lokuð inni í ríkjasambandi sem mótaði allt líf okkar án þess að við gætum haft áhrif á hvert það þróast og það dylst fáum núorðið að það þróast á versta veg. Það er því kaldhæðnislegt að þeir sem þykjast tala fyrir lýðræði í þessu máli eru í raun að reyna að hjúpa það gerningaþoku og grafa þannig undan lýðræðinu. Ég krefst þess að minn lýðræðislegi réttur snúist um annað og meira en að greiða atkvæði um að afnema lýðræðið.

Þorvaldur Þorvaldsson
trésmiður og formaður Alþýðufylkingarinnar
þessi grein britist í Fréttablaðinu 11. maí 2015

Monday, May 11, 2015

1. maí ávarp Alþýðufylkingarinnar 2015

Ályktuninni hér að neðan var dreift í flugriti í göngu og flutt í ávarpi á útifundi á Ingólfstorgi á baráttudegi verkalýðsins, 1. maí, í Reykjavík:

Nú á 1. maí stendur íslensk verkalýðsstétt frammi fyrir mestu áskorun um langt árabil. Fyrir 7 árum var kreppan notuð sem átylla til að herða sultarólina hjá alþýðunni undir því yfirskyni að allir þyrftu að taka á sig byrðar. En síðan hefur það komið æ skýrar í ljós að það taka ekki allir á sig byrðar. Þeir sem græddu í góðærinu hafa haldið áfram að maka krókinn í kreppunni og nú ætla þeir enn að bæta í og halda áfram að skerða kaupmátt alþýðunnar til að auka eiginn gróða.

Nú þegar góðærið hefur verið endurreist fyrir ríkasta fólkið í landinu heldur kreppan áfram að dýpka fyrir alþýðuna. Undanfarin ár hafa mörg þúsund manns verið rekin út á götuna til þess eins að borga himinháa húsaleigu. Og nú reynir auðstéttin að hindra að verkafólkið sem ber minnst úr býtum geti bætt sér upp launalækkanir kreppunnar með kjarabótum.

Eftir því sem þessi mynd verður skýrari hefur vaxið fram aukinn vilji til að draga fram verkfallsvopnið úr áratuga geymslu og brýna það. Öllu máli skiptir að það takist að skapa breiða samstöðu í komandi verkföllum til að knýja fram árangur í bættum kjörum og meiri jöfnuði.

Baráttan snýst ekki bara um fleiri krónur í umslagið um sinn heldur einnig um breytta stefnu sem breytir skiptingu gæðanna í samfélaginu. Ríkistjórnin beitir sér opinskátt fyrir vagn auðvaldsins og stjórnarandstaðan á þingi býður ekki upp á annað en aðild að Evrópusambandinu sem aðeins hefði þau áhrif að auka enn og festa í sessi ójöfnuð og misrétti landinu.

Alþýðufylkingin boðar baráttu gegn auðvaldinu á öllum sviðum með nýtt samfélag að leiðarljósi. Samfélag þar sem hagur alþýðunnar ræðst af lýðræðislegum rétti hennar til að halda sínum hlut og skipuleggja þjóðfélagið út frá hagsmunum heildarinnar.

Framkvæmdastjórn Alþýðufylkingarinnar
1. maí 2015

Friday, May 8, 2015

Ályktun til stuðnings Landvernd og gegn rányrkju

Framkvæmdastjórn Alþýðufylkingarinnar tekur undir baráttu Landverndar og fleiri samtaka gegn rányrkju á íslenskri náttúru til orkuframleiðslu og sérstaka áherslu ber að leggja á baráttu gegn lagningu rafmagnssæstrengs til Skotlands. Slíkur strengur mundi auka þrýsting á að allt verði virkjað sem mögulegt er og auk þess er hefði hann í för með sér stórhækkun á orkuverði til íslenskra heimila.
Á fyrsta áratug aldarinnar var raforkuframleiðslan í landinu tvöfölduð og fyrir fáum árum hafði Íslandsbanki áform um að fjármagna aðra tvöföldun fram til 2024. Þar með væru allir möguleikar tæmdir og kannski gott betur.  Þessir tilburðir eru ekki til þess að uppfylla vaxandi orkuþörf heldur fyrst og fremst til að uppfylla þörf fjármagnseigenda og fjármálafyrirtækja til að koma fjármagni í ávöxtun. Fyrir því verður að verja íslenska náttúru með öllum ráðum.
8. maí 2015
Framkvæmdastjórn Alþýðufylkingarinnar