Thursday, April 28, 2016

Rauður fyrsti maí

Rauður fyrsti maí 2016 verður haldinn í Friðarhúsi, Njálsgötu 87, sunnudaginn 1. maí kl. 20:00. Gleði og glaumur í anda stéttabaráttunnar!
 
Fjölbreytt menningardagskrá. Fram koma m.a.: G. Rósa Eyvindardóttir, Ísak Harðarson, Kristian Guttesen, Sigvarður Ari Huldarsson, Sólveig Anna Jóndóttir, Vésteinn Valgarðsson, Þorvaldur Þorvaldsson o.fl.
 
Allir velkomnir, nema þá helst auðvaldið!
 
Fyrir kvöldinu standa Alþýðufylkingin og Menningar- og friðarsamtökin MFÍK.

Monday, April 25, 2016

Málþing um marxisma á miðvikudag

Við vekjum athygli á þessu málþingi Rauðs vettvangs nk. miðvikudag (27/4):

Kienthal 1916 - Reykjavík 2016
-- Verkefni marxista á vorum dögum 
Málþing Rauðs vettvangs, haldið í tilefni af því að 100 ár eru liðin frá Kienthal-ráðstefnunni, þar sem kommúnistar gerðu upp við meðvirkni sósíaldemókratahreyfingarinnar.

Framsögumenn:
Árni Daníel Júlíusson: „Útsýnið til kommúnismans. Er þokunni að létta?“
Sólveig Anna Jónsdóttir: „Hvað þýðir hægri og vinstri í dag?“
Þorvaldur Þorvaldsson: „Lærdómar frá Kienthal“

Heitt á könnunni -- allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Staður: Friðarhús, Njálsgötu 87.
Stund: Miðvikukvöldið 27. apríl kl. 20:00.

Monday, April 18, 2016

Alþýðufylkingin á Egilsstöðum 20. apríl

Alþýðufylkingin heldur kynningarfund á Gistihúsinu á Egilsstöðum 20. apríl kl. 20:00.
Þorvaldur Þorvaldsson, formaður flokksins, kynnir stefnuna og ræðir málin við gesti og félaga.
Allir velkomnir!

Friday, April 15, 2016

Samstaða – um hvað?

Í Fréttablaðinu 7. apríl birtir Ögmundur Jónasson svar við grein frá mér tveimur dögum fyrr. Honum finnst sér greinilega misboðið. Hvor okkar talar niður til hins, læt ég liggja milli hluta. Ég játa að mér var óþarflega mikið niðri fyrir við skrifin, sem kannski stafar af því að ég hafði trú á Ögmundi og studdi hann um árabil.

Grein minni var ekki ætlað að fella dóm um persónuleg embættisverk Ögmundar heldur vísa til stefnu og áhrifa þeirrar ríkisstjórnar sem hann var lykilmaður í. Auðvitað hefur Ögmundur gert margt gott og þarft sem of langt væri að tíunda en það losar hann ekki undan ábyrgð á stefnu fyrrnefndrar ríkisstjórnar og orð hans verða eðlilega skilin í ljósi hennar að óbreyttu.

Áhrif síðustu ríkisstjórnar
Ögmundur kallar eftir því að ríkisstjórn síðasta kjörtímabils njóti sannmælis. Það þýðir varla eingöngu að bera skuli í bætifláka fyrir hana. Það er fyrst og fremst mikilvægt að meta erindi hennar og áhrif í heild. Með því að einkavæða bankana aftur og færa þá í hendur auðmönnum var í raun öllum leiðum lokað til neinna umbóta. Þegar bankarnir soga til sín öll verðmæti sem þeir koma höndum yfir út úr raunhagkerfinu verður lítið eftir til velferðar og annarra þarfa samfélagsins. Þess vegna fylgdi því blóðugur niðurskurður til velferðar. Um leið fengu bankarnir frítt spil til að reka þúsundir fátækra fjölskyldna út á gaddinn, sem ýmist hafa flúið land eða sligast nú undir hækkandi húsaleigu. „Eigendur“ tryggingafélaga sem fengu styrki frá ríkinu í stað þess að vera þjóðnýtt, eru nú aftur farnir að taka sér háar arðgreiðslur.

Þetta er ekki „eitthvað sem misfórst“. Þetta var kjarni stjórnarstefnunnar og almennir flokksmenn fengu engin tækifæri til að hafa áhrif á hana. Þannig var búið í haginn fyrir íhaldsstjórnina og vaxandi ójöfnuð sem enn heldur áfram. Enn fremur hafði þessi stjórn þau áhrif að ýta undir ranghugmyndir um vinstristefnu. Af hverju ætti Ögmundur ekki að svara fyrir þetta mikla tjón til að reyna að vinda ofan af því?

Það er nefnilega hárrétt hjá Ögmundi að undanfarna áratugi hefur fjarað mjög undan vinstrihreyfingunni undir áhrifum frá svokallaðri frjálshyggju. Ein ástæða þess er sú að vinstrihreyfingin hefur haft of marga leiðtoga sem tala í gátum eða segja eitt og gera annað án samráðs við eigin flokksfólk og stuðningsmenn. Þannig hafa orðið vonbrigði, upplausn og óvissa um hvað vinstristefnan felur í sér í raun og veru. Út úr því koma m.a. flokkar með „alls konar“. En hættan á fasisma lúrir einnig á næsta leiti.

Hvað stendur á fánanum?
Það er því ekki óeðlilegt þó spurt sé hvað stendur á félagshyggjufánanum sem Ögmundur vill draga að húni? Verður það um meiri betlipeninga frá fjármálaauðvaldinu, eða baráttu gegn arðráni og fyrir aukinni félagsvæðingu frá grunni? Stjórnmál eru ekki einkamál flokka og einstaklinga. Samstaða er þar lykilatriði. Til að hún skapist verður að vera samtal og skýrt hvað átt er við. Ef Ögmundi er alvara með að stuðla að slíku er skynsamlegt að bregðast líka við því sem aðrir segja, hvort sem þeir eru sérstakir handhafar sannleikans. Þó að honum finnist það kokhreysti sem jaðrar við aðhlátursefni þá hafa flestar hugmyndir um pólitíska endurreisn vinstrihreyfingarinnar komið fram í stefnu og sjónarmiðum Alþýðufylkingarinnar undanfarin ár. Að sniðganga þau sjónarmið dregur úr líkum á samstöðu.

Þorvaldur Þorvaldsson, trésmiður og formaður Alþýðufylkingarinnar.
Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu og á Vísi.

Monday, April 11, 2016

Panamasprengjan. Til hvers?

Þórarinn Hjartarson skrifar


Þegar vestræn pressa fer í alþjóðlega herferð veit það yfirleitt ekki á gott. Einna ólíklegast af öllu er að þar sé sannleiksleitin í fyrirúmi, hvað þá siðbótin. Þegar ég horfði á fulltrúa Heimssamtaka rannsóknarblaðamanna taka Sigmund Davíð af lífi í sjónvarpsútsendingu, í alþjóðlegri fjölmiðlaherferð þar sem Vladimir Pútín var helsti skotspónn, þá spurði ég mig alveg forviða: hvað er á bak við þetta?

Það er ekki ástæða í sjálfu sér til að vefengja umræddar upplýsingar um ríkt fólk í skattaskjólum, t.d. upplýsingar um spillingu í íslenskri stjórnmálastétt, hvað þá í íslenskri fjármálastétt. En ég spyr samt: HVAÐ ER Á BAK VIÐ þessar afhjúpanir af hálfu vestrænnar meginstraumspressu?

I. Hvað er á bak við?
Þeir sem standa á bak við afhjúpanirnar eru hin bandarísku Heimssamtök rannsóknarblaðamanna, ICIJ,  sem eru hluti hluti af OCCRP (Organized Crime and Corruption Reporting Project) sem er stofnað af USAID (United States Agency for International Development) og kostuð auk þess af stofnuninni Open Society (George Soros). ICIJ er líka nátengt bandarísku stofnuninni Center for Public Integrity sem að sínu leyti er kostuð af Ford Foundation, Carnegie Foundation, Rockefeller Family Foundation, Open Society (Soros) og fleiri stjórnstöðvum bandarískra billjónera og heimsvaldastefnu. Ekki nóg með það, ICIJ er staðsett í Washington DC og stjórn samtakanna er í valdakreðsunum kringum ríkisstjórnina.

Það er nú svo, að Panama er hjálenda Bandaríkjanna. Ekkert þar í landi gerist nema með blessun USA, svo sem hin mikla starfsemi aflandsfélaga þar í landi. Þessi „leki“ er sem sagt fenginn hjá lykilstofnunum í bandarískri áróðursmaskínu, OCCRP/ICIJ. Frakkinn Pepe Escobar skrifar: „Auðvitað  var þessi mikli leki fenginn hjá bandarískri leyniþjónustu. Þetta er þannig efni sem Þjóðaröryggisstofnunin, NSA, skarar fram úr í. NSA getur brotist inn í hvaða gagnagrunna og skjalasöfn sem er. Þeir stela „leyndarmálum“ og granda/múta/vernda hvern sem er eftir því sem þeir kjósa, út frá hagsmunum bandarískrar fjármálaelítu (USG).“ (heimild)

II. Valdir fjölmiðlar miðla upplýsingunum gegnum síu
Samtökin ICIJ hafa einkaleyfi á gögnunum og völdu svo örfáa lykilfjölmiðla á Vesturlöndum til að ritstýra boðskapnum. Í öllum tilfellum eru það leiðandi meginstraumsmiðlar af hægrimiðjunni, og um leið staffírugir flytjendur NATO-boðskaparins í alþjóðamálum: Süddeutsche Zeitung, Guardian, Le Monde. Aðrir miðlar fá svo að bergmála upplýsingarnar áfram án þess að hafa neinn beinan aðgang að gögnunum. Guardian nefnir að flett hafi  verið ofan af „22 persónum sem sitja undir refsiaðgerðum fyrir að styðja stjórnvöld í Norður Kóreu, Sýrlandi, Rússlandi og Zimbabwe.“ (heimild) Önnur lönd sem koma illa út eru Brasilía og Íran. Svo segir enn  fremur í Guardian: „Þó að mikið af efni skjalanna fái áfram að vera í friði [will remain private] er rík ástæða til að birta hluta gagnanna.“ Með öðrum orðum, þessir meginstraumsmiðlar handvelja skotmörkin út frá sínum pólitískum áherslum en áður hafði ICIJ handvalið efnið ofan í þessa miðla. Og þá er vissara að vera ekki að flagga efni sem heggur nærri kostunaraðilum þessara sjálfskipuðu varðhunda rannsóknarblaðamennskunnar.

III. Skotmörk og ekki skotmörk
Það er mikilvægt að kanna hverjir ERU hér innblandaðir, og sömuleiðis hverjir ERU EKKI innblandaðir. Eitt af því sem vekur athygli í gagnrýnum fjölmiðlum utan lands, er að þarna vantar nær alveg upplýsingar um bandarísk fyrirtæki, ekki einn einasti bandarískur auðkýfingur er nefndur á nafn. Er það vegna skorts á fjármálaspillingu í Bandaríkjunum, skorts á skattaskjólum, peningaþvætti? Varla. Það hefur t.d. áður verið afhjúpað að 500 stærstu fyrirtæki í Bandaríkjunum eigi meira en 2000 milljarða dollara í erlendum skattaskjólum. Sjá t.d. þessa grein frá í fyrra. Sem sagt, nóg af bandarísku fé í erlendum skattaskjólum, en í umræðunni núna kemur samt fram nýtt mikilvægt atriði, sem einn hagfræðingur orðar svo: „Bandaríkjamenn geta stofnað skuggafyrirtæki [shell companies] heima hjá sér, í Wyoming, Delaware eða Nevada. Þeir þurfa ekki að fara til Panama til að stofna fyrirtæki sem nýtast fyrir ólöglega starfsemi“ (Shima Baughman). Obama-stjórnin hefur nýlega tekið upp strangari skattalöggjöf, FATCA, sem neyðir erlendar bankastofnanir til að afnema bankaleynd á stórum bandarískum bankainnistæðum. En þær reglur GILDA EKKI um bandarískar fjármálastofnanir í þessum nýju skattaskjóls-ríkjum INNAN Bandaríkjanna. Þar er bankaleyndin og skattaskjólið. Bloomberg.com skrifar: „Eftir að hafa árum saman djöflast á öðrum löndum fyrir að hjálpa Bandaríkjamönnum að fela auð sinn utan lands koma Bandaríkin nú fram sem fremst í því að bjóða skattaskjól og bankaleynd ... Allir, allt frá lögmönnum í London til svissneskra fjármálastofnana keppast nú við að hjálpa auðmönnum heimsins að flytja bankareikninga  sína frá stöðum eins og Bahamaeyjum og Bresku Jómfrúareyjum til Nevada, Wyoming og Suður-Dakota.“ Það er þess vegna afar nærtækt að líta á hinn mikla „leka“ að hluta til sem lið í efnahagsstríði Bandaríkjanna, lið í því að slá niður erlenda keppinauta og sjúga þessa ljósfælnu tegund fjármálastarfsemi heim.

En Guardian og umræddir meginstraumsmiðlar hafa beint helsta kastljósinu AÐ ÖÐRUM SÖKUDÓLGUM, sérstaklega að „kunningjum Pútins“, að embættismönnum kínverska kommúnistaflokksins og „tengdafólki ráðamanna“ þar og svo auðvitað „frænda“ Assads Sýrlandsforseta. Föstum liðum í utanríkisstefnu USA. Þó eru hvorki Pútin né Assad sjálfir nefndir í skýrslunni, sem er ögn neyðarlegt. Höggið sem kemur á einn forsætisráðherra í NATO-landi í Vestur-Evrópu, Sigmund Davíð Gunnlaugsson, og föður Davids Cameron má líklega skoða sem „hliðartjón“, og gæti þá þjónað þeim tilgangi að auka ofurlítið trúverðugleika skjalanna. Wikileaks hafa m.a. sagt um skjölin að áherslan á að koma höggi á Pútin rýri mjög gagnsemi þessa „leka“. Ekki bara það, sú uppljóstrunarstofnun segir að TILGANGUR lekans hafi beinlínis verið að ráðast á Pútín: „#PanamaPapers Putin attack was produced by OCCRP which targets Russia & former USSR and was funded by USAID & Soros.“

Sá þekkti  bandaríski refur í rannsóknarblaðamennsku, Robert Parry (þekktastur fyrir að afhjúpa Íran-Contras hneykslið), ályktar að fleira hangi á spýtunni en Pútin einn: „Við sjáum eitthvað sem lítur út sem nýr undirbúningsfasi fyrir næstu lotu í „valdaskiptum“ með ásökunum um spillingu sem beinast að fyrrum brasilíska forsetanum Lula da Silva og Pútin Rússlandsforseta.“ Parry nefnir að það sé eitt stóra kappsmálið í Bandaríkjunum að veikja hina skæðu keppinauta, nýmarkaðslöndin sem kennd eru við BRICS, einmitt með ásökunum um spillingu. (heimild) Sú herferð sem nú fer fram gegn spillingu bæði í Brasilíu og Suður Afríku á sér að stórum hluta bandarískar rætur og hefur það markmið að valda óstöðugleika.

IV. Íslenski þátturinn
Við Íslendingar höfum fengið svolítinn smjörþef af því hvernig „litabyltingar“ geta virkað, hvað einkennir herferðir vestrænna afla og fjölmiðlavelda til að valda óstöðugleika í ríkjum þar sem stefnt er að „valdaskiptum“, án þess þó að „litabyltingin“ leiddi til neinna valdaskipta hér á landi. Að „lekinn“ kom svo hart niður hér á landi helgast náttúrlega líka af því hvað svona fjármálastarfsemi frá Íslandi var útbreidd fyrir hrun. En eins og ég hef áður nefnt var höggið gegn Sigmundi Davíð og íslensku ríkisstjórninni þó líklega „hliðartjón“ í herferðinni frekar en að mikilvægt hafi þótt í Bandaríkjunum að ná framsóknarforingjanum.

En hvað um það að Sigmundur Davíð skuli vera kominn „í hóp með fyrirlitlegum einræðisherrum“ og Ísland þar með lent í svo hræðilegum félagsskap? Sko, þau nöfn sem koma fram í „lekanum mikla“ eru óneitanlega viðriðin aflandsfélög, oftast líklega í skattalegum tilgangi og feluleik. En þetta úrtak misspilltra stjórnmála- og valdamanna sem lent hefur í fókus speglar samt sem áður pólitískar áherslur og efnahagsstríð vestur í Bandaríkjunum frekar en raunverulega dreifingu fjármálaspillingar í heiminum. Og Jóhannes Kr. Kristjánsson, Kastljós ríkissjónvarpsins & co. voru í þessu máli verkfæri voldugri afla en þau kannski gerðu sér grein fyrir sjálf.

Þórarinn Hjartarson

Saturday, April 9, 2016

Ögmundur svarar Þorvaldi

Í Fréttablaðinu og á Vísi svarar Ögmundur Jónasson grein Þorvaldar Þorvaldssonar, formanns Alþýðufylkingarinnar: Drögum félagshyggjufánann að húni!

Wednesday, April 6, 2016

Hvað þykistu vera að reyna að segja, Ögmundur?

Nú 1. apríl birti Ögmundur Jónasson grein í Fréttablaðinu um að endurnýja þurfi vinstristefnuna þar sem vinstrimenn hafi „glatað tiltrú vegna þess að sjálfir hafi þeir misst trú á eigin lausnum“. Tali nú hver fyrir sig.

Auðvitað má taka undir ýmislegt sem kemur fram í greininni, sérstaklega ef það væri ekki svona óljóst og almennt orðað. T.d. um nauðsyn þess að stofna samfélagsbanka (hvað sem það er nú), snúa við markaðsvæðingu orkufyrirtækja, hætta að rukka sjúklinga, framfylgja félagslega ábyrgri stefnu og hætta að láta glepjast af tálsýnum peningahyggjunnar, o.s.frv.

Uppgjör við fortíðina
Ef Ögmundur ætlar að lyfta sér upp fyrir froðusnakk og lýðskrum verður hann að nálgast veruleikann og svara nokkrum spurningum um það hvers vegna hann framkvæmdi á síðasta kjörtímabili stefnu sem er öndverð við það sem hann boðar nú. Hann dró hvergi af sér við að rukka sjúklinga meira en nokkru sinni fyrr, tók þátt í að færa auðstéttinni banka, tryggingafélög og fleiri fjármálastofnanir á silfurfati til að halda áfram að féfletta alþýðuna. Einkavæðing orkufyrirtækja tók kipp og tálsýnir peningahyggjunnar voru alls ráðandi hjá forystu VG.

Ögmundur verður líka að svara því af hverju hann, eins og aðrir forystumenn flokksins, skelltu skollaeyrum við málflutningi í takt við þann sem hann hefur í frammi nú. Er þetta bara stjórnarandstöðustefna og önnur í gildi þegar flokkurinn er í stjórn? Eða varð Ögmundur fyrir vitrun? Það er ekki þannig að auðstéttin sé nú eina ferðina enn að koma samfélaginu undir hæl sinn. Þannig hefur það verið lengi og óslitið, og Ögmundur er hluti af þeim hæl þegar á þarf að halda.

Hvað með veruleikann?
Ef Ögmundur ætlar að verða marktækur verður hann líka að eiga samtal við aðra, ekki síst þá sem óslitið hafa framfylgt þeirri stefnu sem hann þykist nú boða. Það er óþarfi að vera alltaf að byrja uppá nýtt þegar til er flokkur sem byggir á því besta úr sögu og reynslu verkalýðssamtaka og -flokka frá öndverðu og hefur fulla trú á eigin lausnum. Ögmundi er auðvitað frjálst að nota stefnuskrá Alþýðufylkingarinnar, sérstaklega ef hann ætlar að koma henni í framkvæmd. En hún er ekki til frjálsra afnota í lýðskrumstilgangi.

Umrædd grein Ögmundar er í stíl við greinar nokkurra annarra úr VG að undanförnu. Þær bera með sér áform um að þurrka heilt kjörtímabil út úr sögunni og reyna að skapa sér róttækari ímynd eins og ekkert hafi í skorist í trausti gleymskunnar. Það getur hins vegar aldrei orðið trúverðugt. Vinstrafólk sem í sannleika vill hefja vinstristefnuna til vegs á ný verður að gera upp við sig hvort það vill á ný eyða áratug í að hnoða VG inn í ráðuneytin til þess eins að valda sömu vonbrigðum og 2009. Endurreisn vinstristefnu á Íslandi er óhugsandi án aðkomu Alþýðufylkingarinnar. Ímynd byggð á froðusnakki mun engu breyta.

Þorvaldur Þorvaldssson, trésmiður og formaður Alþýðufylkingarinnar
Þessi grein birtist í gær á Vísi og í Fréttablaðinu.