Wednesday, March 18, 2015

Ályktun um viðræðuslit við ESB

Framkvæmdastjórn Alþýðufylkingarinnar lýsir yfir stuðningi við að aðildarviðræðum við Evrópusambandið verði slitið. Því fyrr, þess betra. Þótt við styðjum efnislega ákvörðun Gunnars Braga Sveinssonar, gagnrýnum við málsmeðferðina. Það hlýtur að teljast til meiriháttar utanríkismála að slíta aðildarviðræðum við ESB og því ætti ráðherra ekki að gera það einn. Málsmeðferðin hefur ekki bara þann galla að gera lýðræðislegt gildi ákvörðunarinnar hæpið, heldur mistekst fyrir vikið líka að kveða umsóknina niður í eitt skipti fyrir öll. Betur hefði farið á að lýsa því yfir fyrir kosningar að þetta stæði til. Fyrir síðustu Alþingiskosningar lýstu talsmenn Alþýðufylkingarinnar því yfir í viðtölum að við mundum umsvifalaust slíta viðræðunum ef við fengjum til þess fylgi. Íslenskir kjósendur geta treyst því í næstu kosningum, eins og þeim síðustu, að atkvæði greitt Alþýðufylkingunni er atkvæði fyrir fullveldi Íslands.

Framkvæmdastjórn Alþýðufylkingarinnar
18. mars 2015

Friday, March 6, 2015

Opið hús á morgun

Alþýðufylkingin býður í opið hús í Friðarhúsi, á horni Snorrabrautar og Njálsgötu, á morgun, laugardag 7. mars milli klukkan 12 og 16. Komið og spjallið um landsins gagn og nauðsynjar við félaga í Alþýðufylkingunni og súpið kaffi með.

Wednesday, March 4, 2015

Opið hús hjá Alþýðufylkingunni á laugardag

Alþýðufylkingin býður í opið hús í Friðarhúsi, á horni Snorrabrautar og Njálsgötu, laugardaginn 7. mars milli klukkan 12 og 16. Komið og spjallið um landsins gagn og nauðsynjar við félaga í Alþýðufylkingunni og súpið kaffi með.

Thursday, February 26, 2015

Alþýðufylkingin sér um málsverð í Friðarhúsi á morgun

Af augljósum ástæðum er rétt að Alþýðufylkingin veki athygli á þessum gómsæta kvöldverði annað kvöld, föstukvöldið 27.2.:
Næsti fjáröflunarmálsverður Friðarhúss verður haldinn föstudaginn 27. febúar nk. Það verða félagar í Alþýðufylkingunni sem sjá um eldamennskuna að þessu sinni.
Matseðill:
* Lasagne að hætti hússins
* Grænmetislasagne að hætti hússins
* Salat og heimabakað brauð með hvítlaukssmjöri að hætti hússins
* Kaffi, gulrótarkaka og súkkulaðikaka í eftirrétt
Að borðhaldi loknu mun hinn frábæri trúbador Skúli mennski skemmta gestum.
Borðhald hefst kl. 19. Verð kr. 2.000. Allir friðarsinnar velkomnir.
Sjáumst þar!
(Ef einhver veit það ekki ennþá, þá er Friðarhús félagsheimili Samtaka hernaðarandstæðinga og er staðsett á Njásgötu 87, horni Snorrabrautar.)

Wednesday, December 24, 2014

Jóla- og áramótakveðja Alþýðufylkingarinnar

Ég sendi félögum og stuðningsmönnum Alþýðufylkingarinnar bestu kveðjur í tilefni jóla og áramóta og óska þeim hins besta á komandi ári.

Það hafa skipst á skin og skúrir í starfi okkar á undaförnu ári. Því miður hafa allmargir félagar orðið viðskila við okkur og erfitt reynst að halda uppi samfelldri virkni í starfi. En á móti kemur að nokkrir nýir félagar hafa gengið til liðs við okkur og fleiri sýnt því áhuga.

Þátttaka okkar í sveitarstjórnarkosningunum í Reykjavík fékk mjög jákvæðar undirtektir í samfélaginu og vakti athygli margra á stefnu okkar. Þar kom líka skýrt fram hve skýrt stefna okkar sker sig úr stefnu allra annarra flokka. Það hefur bóstaflega komið í ljós að litlu sem engu er hægt að breyta til batnaðar í samfélaginu nema stefna okkar komi þar við sögu. Það er því ótvíræð og brýn þörf fyrir okkur og stefnu okkar en það er ekki sjálfgefið að hún komist í framkvæmd.

Þegar allt kemur til alls er Alþýðufylkingin aðeins summa félaganna og afl okkar ræðst af okkur sjálfum og hversu framarlega félagar Alþýðufylkingarinnar setja hana í forgangsröðinni.

Ég er þess fullviss að okkur tekst að efla starfsemi okkar og áhrif á komandi ári og hvet alla félaga til að leggjast á árarnar til að það rætist.

Þorvaldur Þorvaldsson, formaður Alþýðufylkingarinnar

Monday, September 22, 2014

Ályktun um útþenslu Nató

Framkvæmdastjórn Alþýðufylkingarinnar fordæmir áform um frekari útþenslu á starfsemi hernaðarbandalagsins Nató.

Nató er stærsta ógnin við friðsamlega sambúð þjóða og hefur kynt undir ófriði um allan heim undafarna áratugi, ýmist í eigin nafni eða einstök ríki bandalagsins.

Innrásir Natóríkja og íhlutun í löndum Arabaheimsins hafa leitt af sér samfélagslega tortímingu í mörgum löndum og vakið upp drauga sem erfitt verður að kveða niður.

Áframhaldandi útþensla Nató til austurs og íhlutun þess í Úkraínu er samtímis brot á fyrri samningum og mjög háskaleg ógnun við heimsfrið.

Þeim fjármunum sem íslensk stjórnvöld ætla að bæta við í útþenslu Nató væri betur varið til annarra verkefna. Það eina rétta væri að að Ísland segði sig úr Nató og snéri baki við glæpaverkum bandalagsins.

Framkvæmdastjórn Alþýðufylkingarinnar 21. september 2014

Thursday, June 5, 2014

Ályktun vegna nýafstaðinna borgarstjórnarkosninga

Alþýðufylkingin þakkar þeim 219 Reykvíkingum sem greiddu henni atkvæði á laugardaginn. Sem kunnugt er, náðum við ekki manni kjörnum í borgarstjórn, en við erum ánægð með að hafa vakið athygli á stefnu okkar, félagsvæðingunni.

Við munum því halda ótrauð áfram að koma málstaðnum á framfæri og byggja upp eina sósíalíska flokk á Íslandi. Næst verðum við betur undirbúin og bjóðum áhugasömum að ganga til liðs við okkur: Látið ekki ykkar eftir liggja, sósíalisminn byggist ekki upp af sjálfu sér heldur aðeins í gegn um vinnu og baráttu, og nóg er af því framundan.

Framkvæmdastjórn Alþýðufylkingarinnar
4. júní 2014