Tuesday, February 9, 2016

TISA og lýðræði á undanhaldi

Nokkur umræða hefur vaknað um væntanlegan TISA-samning, en Ísland á aðild að samningsgerðinni. Stjórnmálasamtökin Dögun stóðu fyrir opnum fundi um málið fyrir skömmu og Ögmundur Jónasson tók það upp á Alþingi 4. febrúar. Það sem mest er gagnrýnt er leyndin yfir viðræðunum, enda samningsgerðin bak við luktar dyr. Aðferðina skortir allt lýðræði enda er markmiðið ekki styrking lýðræðis heldur þvert á móti, flutningur valds til fjölþjóðlegra auðhringa og risafyrirtækja. Frumkvæðið að TISA kemur frá auðhringunum en almenningi er haldið óupplýstum. Reiknað er með að samningurinn verði lagður fyrir þjóðþing, m.a. Alþingi á Íslandi, en bara til samþykktar eða höfnunar í heilu lagi og óumbreytanlegur. Þetta er víst ekki mál fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu og ekki heldur kosningamál. Gunnar Bragi Sveinsson blæs á gagnrýni og segir samningsgerðina eðlilega og væntanlegan samning hefðbundinn, saklausan viðskiptasamning. Það er fjarri sannleikanum.

TISA-viðræðurnar koma sem framhald GATT viðræðnanna. Fyrsti GATT-samningur varð til fyrir 1950 sem samningur um frjálsari verslun með VÖRUR á eftirstríðsárunum. GATT varð síðan verkfæri til „opnunar markaðanna“ og afnáms innflutningsverndar. Úrúgvæ-lotu GATT-samningsins lauk 1994 með stofnun WTO (Alþjóðaviðskiptastofnunin) og fól einkum í sér frelsun á flæði FJÁRMAGNS OG FJÁRFESTINGA. Frumkvæðið og þrýstingurinn til „opnunar“ kom alla tíð fá vestrænum, einkum bandarískum, auðhringum sem beittu sér fyrir „opnun“ og frjálsara flæði vöru og fjármagns yfir landamæri.TISA er þriðja stóra lotan: frelsun VIÐSKIPTA MEРÞJÓNUSTU. Úrúgvæ-lotan hafði fætt af sér svokallaðan GATS-samning sem einmitt tók til viðskipta með þjónustu. Hins vegar hafði markaðsvæðing þess sviðs stöðvast á miðri leið vegna andstöðu meðal þróunarríkja og ýmissa baráttusamtaka gegn hnattvæðingu (kennd við Seattle 1999). TISA er á sinn hátt framhald GATS, með TISA-viðræðunum tóku 50 þróuð ríki sig út úr, undir forustu Bandaríkjanna, til að búa til nýja samninga um frjálst flæði og stilla síðan öðrum ríkjum upp við vegg og bjóða þeim aðgang að fullmótuðum samningi eða standa úti.

TISA-samningurinn stefnir í það að gera þjónustu að alþjóðlegri verslunarvöru og fjarlægja pólitískar og félagslegar hindranir á „frjálsum viðskiptum “ á því sviði. Löndin skuldbinda sig til að OPNA ÞJÓNUSTUGEIRANN (heilsugæsla, öldrunarþjónusta, menntun, vatns- og orkuveitur, söfn, fjármálaþjónusta, menningarviðburðir...) og markaðsvæða hann á alþjóðlegum markaði. Hugmyndafræðin er frjálshyggja, afnám opinbers regluverks (deregulation). Markaðsvæðingin er jafnframt opnun til einkavæðingar. TISA-samningurinn meinar löndum að hygla að eigin starfsemi (rekstri/fyrirtækjum) á sviði þjónustu eða gera kröfur sem „mismuna“ aðilum, t.d. mismuna jákvætt í þágu neytendaverndar, vinnuverndar, heilsuverndar, umhverfis (sbr. umhverfistengd þjónustuviðskipti). Frjáls markaðslögmál á alþjóðavettvangi eiga að stjórna fjárfestingu í þjónustu og því hvernig þjónustan er veitt. Ljóst má vera af upptalningunni að þetta eru breytingar sem munu hafa geysivíðtæk áhrif á íslenskt samfélag eins og önnur. TISA-samningurinn er risaskref í löngu ferli sem felur í sér stöðuga VALDATILFÆRSLU FRÁ ÞJÓÐKJÖRNU VALDI TIL MARKAÐSAFLANNA. Stórum sviðum er kippt út af vettvangi stjórnmálanna og kosningar til þings og fulltrúasamkunda missa vægi sitt að sama skapi.

Mestar upplýsingar um TISA koma frá leka Wikileaks á nokkrum skjölum um viðræðurnar í júní 2015, sjá https://wikileaks.org/tisa/. Eftir þær afhjúpanir hefur gagnrýnin beinst að afleiðingum samningsins fyrir lýðræðið: hvernig hann breytir þjóðlegu fullveldi í átt að alræðisvaldi stórfyrirtækja. Bergsveinn Birgisson skáld skrifar um dómsvaldið og lögsöguna á sviði samningsins, fyrirbæri sem nefnist „Fjárfestingadómstóll“ (Investor State Dispute Settlement, ISDS): „Í þessum sem og öðrum fríverslunarsamningum er kveðið á um hvernig stórfyrirtæki geta rekið dómsmál gegn þjóðríkjum fyrir gerðardómi ef þeim finnst brotið á sér eða markaðslegt olnbogarými þeirra skert svo það bitni á gróða þeirra. Þessi gerðardómur er skipaður þremur lögfræðingum, hvar tveir þeirra eru oftast hallir undir hag fyrirtækisins, en einn frá landinu sem reynir að spyrna gegn hnattræna túrbó­kapítalismanum.“ Sjá: http://www.visir.is/tisa-samningurinn-og-lydraedi-a-utsolu/article/2015151129588
Arkítektinn á bak við TISA er Bandaríkin. Því landi er að mestu stjórnað af lobbýistum stórfyrirtækja, fulltrúi þeirra í þjónustugeiranum er The Coalition of Services Industries með flesta stærstu auðhringa Bandaríkjanna innanborðs. Hinn aðalaðili samningsins er ESB en auk þess eru rúmlega 20 náin fylgiríki Bandaríkjanna í Suður-Ameríku og Asíu með (m.a. Japan). Hins vegar eru hvorki Kína né sk. BRICS-ríki með (BRICS: Brasilía, Rússland, Indland, Kína og Suður-Afríka), þ.e. hinir uppvaxandi keppinautar gömlu iðnríkjanna á heimsmarkaðnum. TISA er hluti af viðskiptastríði.

Þetta er mikilvægt. TISA er beinlínis TEFLT GEGN framantöldum „nýmarkaðsríkjum“, og umfram allt Kína. TISA er hluti af stærri heild, samningurinn hangir náið saman við tvo aðra samninga sem hafa líka verið í mótun bak við luktar dyr á sama tíma: TTIP (Transatlantic Trade and Investment Partnership) sem er fríverslunarsamningur milli Bandaríkjanna og ESB, ennþá á samningsstigi, og TPP (Trans-Pacific Partnership) sem er skoðaður sem „systursamningur“ (companion agreement) og þar með fyrirmynd hins fyrrnefnda og var undirritaður af 12 Kyrrahafsríkjum þann 4. febrúar síðastliðinn. Daginn eftir kynnti RÚV samninginn og reyndi ekkert að dylja þetta stríðshlutverk hans: „Barack Obama segir samninginn veita Bandaríkjunum forskot á önnur efnahagsleg stórveldi, þá sérstaklega Kína.“ Sjá http://www.ruv.is/frett/friverslunarsamningur-undirritadur. Viðskiptastríðið og hernaðarútrás Vestursins eru tveir þættir í hnattrænu stríði gömlu heimsveldanna við þau nýju, og línur í stríðinu skýrast með þessum nýju samningum. Þess ber svo að geta að þegar TTIP- samningurinn lítur dagsins ljós tekur hann EINNIG GILDI Á íSLANDI gegnum EES-samninginn þótt Ísand sé ekki beinn aðili að honum.

Auðvaldið fer sínu fram meðan lítið mótvægi er frá virkri (hvað þá sósíalískri) verkalýðshreyfingu eða öflugum grasrótarhreyfingum. Og niðurstaðan er ört hopandi lýðræði.

Þórarinn Hjartarson

Friday, February 5, 2016

Katrín Jakobsdóttir svarar Þorvaldi

Hér var fyrir stuttu birt opið bréf frá Þorvaldi Þorvaldssyni til Katrínar Jakobsdóttur.
Í byrjun þessarar viku birtist svar Katrínar: Bréf til Þorvalds.
Lesið og dæmið sjálf.

Monday, February 1, 2016

Opið bréf til Katrínar Jakobsdóttur

Kæra Katrín. Mig langar að spyrja um álit þitt og VG á máli sem nokkuð hefur verið til umfjöllunar og skiptir talsverðu máli frá ýmsum sjónarhóli.

Undanfarið hefur viðskiptabann gagnvart Rússlandi, sem Ísland hefur tekið þátt í undir handarjaðri Evrópusambandsins, ratað á ný í fjölmiðla. Tilefnið er síðbúið andsvar Rússa sem hafa sett bann við innflutningi matvæla frá Íslandi og fleiri löndum. Útgerðarmenn og fiskútflytjendur bera sig illa og látið hefur verið í veðri vaka að þeirra hagsmunir séu einu rökin gegn viðskiptabanninu. Það sé borið uppi af óvéfengjanlegum málstað og andstaða gegn því feli í sér að selja sál sína fyrir peninga. Því er haldið fram að Rússar hafi brotið alþjóðalög í átökunum í Úkraínu og með innlimun Krímskagans. En málið er ekki svo einfalt.

Hver er þá hinn raunverulegi málstaður að baki viðskiptabannsins gagnvart Rússlandi? Í febrúar 2014 var rétt kjörinn forseti Úkraínu, Viktor Janukovitsj, hrakinn frá völdum í valdaráni fasista, sem helstu máttarvöld Evrópusambandsins og Bandaríkjanna stóðu á bak við. Valdaránsstjórnin hóf feril sinn með því að afnema stöðu rússnesku sem opinbers tungumáls og ógna rússneskumælandi íbúum á margan hátt. En drjúgur hluti landsmanna er rússneskumælandi, sérstaklega í austurhéruðunum og á Krímskaga þar sem Rússar eru í verulegum meirihluta. Enda tilheyrði Krím­skagi Rússlandi til ársins 1954 og innlimun hans í Úkraínu orkaði mjög tvímælis. Samkvæmt samningi frá uppskiptum Sovétríkjanna hafa Rússar haft aðstöðu fyrir flotastöð í Sevastopol á Krímskaga til að verja sig gegn flaugum NATO sem umkringja Svartahafið að mestu.

Niðurstaðan er sú að málstaður viðskiptabannsins sé stuðningur við ólöglega valdatöku fasista í Úkraínu og óhefta útþenslu NATO og Evrópusambandsins. En áhrifin eru vaxandi spenna og hatur. Hér heima fer utanríkisráðherrann mikinn og heldur því fram að samstaða sé á Alþingi um viðskiptabannið gegn Rússlandi.

Því langar mig að spyrja þig, Katrín, um afstöðu þína og þíns flokks til málsins og hvort þið styðjið viðskiptabannið eins og utanríkisráðherrann gefur í skyn. Ef svarið er já, óska ég eftir að helstu rök fyrir því fylgi með. Ef svarið er hins vegar nei er auðvitað gott að rökin fylgi einnig og jafnvel tillögur um baráttuaðferðir gegn því.

- Þorvaldur Þorvaldsson, trésmiður og formaður Alþýðufylkingarinnar
(Þessi grein birtist í Fréttablaðinu og á Vísi fyrir helgi.)

Tuesday, January 26, 2016

Monday, December 14, 2015

Sönghefti komið a netið!

Það er okkur sönn ánægja að tilkynna að sönghefti Alþýðufylkingarinnar er nú komið á internetið! Hægt er að finna það hérna:

Sönghefti Alþýðufylkingarinnar

...eða á samnefndum hlekk hér á spássíunni. Nú, við viljum endilega að sem flestir njóti þessara söngva með okkur og brýni sig á þeim fyrir baráttuna, þannig að gjörið svo vel!

Thursday, December 10, 2015

Skertur samningsréttur stéttarfélaga

Þann 4. nóvember fór formaður Verkalýðsfélags Akraness til Reykjavíkur til fundar um kjör starfsmanna Akranesskaupstaðar. Þar var honum tjáð að Samband íslenskra sveitarfélaga væri algjörlega skuldbundið því sem fram kæmi í rammasamkomulagi undirrituðu 27. okt. af svonefndum SALEK-hópi skipuðum fulltrúum aðila vinnumarkaðarins og ríkisins. Þar er m.a. kveðið á um hverjar hækkanir megi vera hjá hópum launþega sem ósamið er við, fram til ársins 2018.

Vilhjálmur verkalýðsforingi á Akranesi fann seinna út sér til hrellingar að í þeim samningum sem Sambandi íslenskra sveitarfélaga hefur gert við ýmis félög bæjarstarfsmanna undanfarið hefur svokallað SALEK- samkomulag FYLGT MEÐ sem viðhengi. Svo les ég í Morgunblaðinu 25. nóvember að Samband íslenskra sveitarfélaga hafi skrifað undir samkomulag við BSRB og SFR sem var „á svipuðum nótum og þeir samningar sem gerðir hafa verið á opinberum vinnumarkaði að undanförnu og taka mið af SALEK-samkomulaginu sem aðilar vinnumarkaðarins gerðu í október.“

Skjótt og hávaðalaust er komin í notkun NÝ UMGJÖRÐ um kjaraviðræður í landinu. Rammi sem engar kröfur mega fara út fyrir liggur fyrir í upphafi viðræðna. Aldeilis tromp fyrir atvinnurekandann að slá í borðið með!

Við höfum reyndar haft óljósar fréttir af starfi þessa SALEK-hóps sem var stofnaður 2013, starfandi undir verkstjórn ríkissáttasemjara. Í vor og sumar gerði verkalýðshreyfingin meiri kröfur en venjulega, launadeilur urðu líka nokkuð víðtækar, einkum á opinbera markaðnum vissulega, en jafnvel Starfsgreinasambandsfélög á landsbyggðinni fóru í 2 daga verkfall. Slíkt hefur ekki gerst í stóru ASÍ-sambandi í marga áratugi. Mátti spyrja sig: er stéttasamvinnupólitíkin að bila? Seðlabankastjóri fór á yfirsnúning og Þorsteinn Víglundsson foringi SA sagði – vísandi sérstaklega til átakanna á sjúkrahúsum og hjá BHM – að „vinna við breytingar á vinnumarkaðsmódeli verði að hefjast ef ekki eigi að hljótast verra af.“

SALEK-hópur skilaði rammasamkomulagi 27. október sl. Helstu þættir þess eru: 1. Stofnun Þjóðhagsráðs sem skal greina stöðuna í efnahagsmálum  2. Sameiginleg launastefna til ársloka 2018, sameiginlegur kostnaðarrammi er fundinn 32%, að frádregnum áorðnum kostnaði.  3. Fram til ársloka 2018 skal þróa samningslíkan sem gilda skal við kjarasamninga á Íslandi. Ein „meginstoð“ í því líkani skal vera: Samkeppnis og útflutningsgreinar „semji fyrst og móti þannig það svigrúm sem til launabreytinga er.“

Í kynningu samkomulagsins í fjölmiðlum, sem var hreint ekki hávær, var breytingunni valin lokkandi yfirskrift: „NORRÆNT VINNUMARKAÐSLÍKAN“ sem fjölmiðlarnir tönnluðust á. Breytingin boðar skandinavísk kjör! Samkvæmt RÚV er eitt helsta markmiðið að „stöðva svokallað höfrungahlaup á vinnumarkaði“. Þorsteinn Víglundsson og Gylfi Arnbjörnsson útskýrðu að fara yrði nýjar leiðir í samningagerð til að „tryggja frið á vinnumarkaði og raunverulegar kjarabætur.“ Boðskapurinn er: „friðarstefna“ gagnast launafólki og samfélaginu best. 

Í kynningu innan verkalýðshreyfingarinnar – sem er rétt að hefjast – tala forustumennirnir helst um SALEK-samkomulagið sem „lausa hugmynd“, EKKI SÉ BÚIÐ AÐ ÁKVEÐA NEITT. En það stenst illa miðað við það að samkomulagið er þegar komið í fulla notkun og kaupákvæði þess notað sem óbrjótanlegur rammi!

Þess má geta að SA setti í apríl í vor fram hugmynd um Þjóðhagsráð – skipað fulltrúum ríkisstjórnar, seðlabankastjóra og aðila vinnumarkaðar – og ríkisstjórnin tók undir þá hugmynd. Varðandi mat Þjóðhagsráðsins á „sigrúminu“ má geta þess að Seðlabankinn hefur lengi reiknað út þetta „svigrúm“ og yfirleitt fundið tölu nálægt 3%. Mat Þjóðhagsráðs verður sjálfsagt mjög svipað, nema hvað nú (eftir 2018) verður aðilum vinnumarkaðar SKYLT að semja innan þess gefna ramma. Frjáls samningsréttur?


Eitt verkalýðsfélag hefur opinberlega gagnrýnt þetta nýja „líkan“, Verkalýðsfélag Akraness. Á vefsíðu þess segir að samkomulagið sé „skerðing á samningsrétti og frelsi stéttarfélaganna enda kemur fram í samkomulaginu að fyrirfram sé búið að ákveða hverjar launabreytingar eigi að vera“. Í ljósi þess hefur Akranesfélagið höfðað mál gegn Sambandi ísenskra sveitarfélaga fyrir Félagsdómi. Sambandið svarar nú af fullri hörku og krefst þess að félagið falli frá málinu og skrifi undir NÁKVÆMLEGA EINS SAMNING og hin félögin, með SALEK-samkomulagið sem viðhengi, að öðrum kosti fái félagið engan samning.

Þórarinn Hjartarson

Monday, December 7, 2015

Hið þríeina stríð gegn borgaralegum mannréttindum og frelsi (ályktun)

Á undanförnum árum og áratugum hafa Bandaríkin lýst yfir stríði gegn fíkniefnum og hryðjuverkum og hafið stríð gegn internetinu án sérstakrar stríðsyfirlýsingar. Önnur lönd, sem höll eru undir bandarísk heimsyfirráð, hafa fylgt í kjölfarið en enn fremur taka mörg önnur lönd þátt í þessum sömu stríðum, hvert með sínum formerkjum og nægir þar að nefna þátttöku Rússlands og Kína í stríðinu gegn internetinu.

Stríðið gegn fíkniefnum drepur milljónir sjúklinga á hverju ári, stimplar neytendur sem glæpamenn og leyfir glæpaklíkum að einoka markaðinn, oft með skelfilegum afleiðingum fyrir saklausa borgara. Það er í nafni þessa stríðs sem íslensk ungmenni eru gerð ærulaus, finnist þau með korn af kannabis í fórum sínum.

Stríðið gegn hryðjuverkum drepur hundruð þúsunda saklausra borgara árlega, heldur þjóðum í herkví og takmarkar gróflega frelsi flugfarþega, sem eru meðhöndlaðir sem glæpamenn við vopnaleit. Það var í nafni þessa stríðs sem ráðamenn Íslands gerðust stríðsglæpamenn í Írak.

Stríðið gegn internetinu veldur því að fólk eins og Chelsea Manning situr í fangelsi, Edward Snowden er landflótta og Julian Assange má sig hvergi hræra af ótta við að verða framseldur til Bandaríkjanna - fyrir það eitt að leka upplýsingum. Í nafni öryggis, bannhyggju og forvarna er aðgangi almennings að upplýsingum eða að koma frá sér upplýsingum lokað eða reynt að loka víðsvegar í heiminum. Það er í nafni þessa stríðs þegar íslenskir ráðamenn ætla að loka fyrir aðgang almennings að hluta internetsins.

Öll þessi stríð ber að sama brunni: Að skerða borgaraleg réttindi. Þess vegna má líta á þessi þrjú stríð sem þrjár greinar á sama meiði, þ.e. stríð gegn frelsi borgaranna.

Alþýðufylkingin mun beita sér fyrir því að Ísland dragi sig út úr stríðinu gegn fíkniefnum og stríðinu gegn hryðjuverkum, m.a. með úrsögn úr NATO og gerbreyttri afstöðu til stefnu Vesturlanda í málefnum Miðausturlanda, og að á Íslandi verði sérstakt skjól fyrir upplýsingaveitur internetsins.


Landsfundur Alþýðufylkingarinnar 28.-29. nóvember 2015